Félagi og starfsbróðir hringdi í mig í fyrrasumar. Var að fara í veiðitúr. Langaði að kasta flugu. Hafði fengið tilsögn í að kasta svo hann taldi sig reiðubúinn að prófa. Var búinn að fá lánaða stöng. Mér leist vel á þetta framtak. Ekki fara í fluguveiði án þess að læra undirstöðuatriði
kastsins. Það er mikilvægast af öllu til að komast vel af stað. Þegar ég byrjaði sjálfur fyrir alvöru hjálparlaust keypti ég bækling í Veiðimanninum, fór með stöng og hjól upp að Elliðavatni og æfði mig. Ég vil ekki kalla þau ár sem ég varði við þessa iðju glötuð, en þau hefðu nýst mun betur ef ég hefði farið á kastnámskeið eða fengið leiðsögn - aðra en af bæklingnum. Svo það tók mig nokkurn tíma að venja mig af undirstöðu villum loksins þegar ég lærði að kasta, og kannski verð ég aldrei góður kastari af því að ég lærði ekki almennilega í byrjun. En vinur minn var sem sagt kominn með undirstöðuatriðin á hreint. Og kunni að festa hjólið á stöngina. (Ég veiddi heilan dag með manneskju sem setti hjólið á öfugt og skildi ekkert í þessum ósköpum!) Og vinur minn var búinn að fá rétta tauma, og þá létti mér, því öðru sinni veiddi ég heila tvo daga með náunga sem var með svo lélega tauma að hann hefði aldrei haldið fiski ef hann hefði glapist til að setja í einn.)
Og stöng fékk hann lánaða, sem er gáfulegt, því maður þarf að kynnast stönginni sem maður ætlar að veiða með í framtíðinni - áður en maður kaupir hana. (En það er ekki jafn gáfulegt að fá ánaða stöng þegar maður brýtur hana fyrir öðrum - eins og ég gerði í fyrsta alvörutúrnum mínum. En frá því sagði ég vini mínum ekki). En nú vantaði hann flugur. Hvort ég vildi ekki vera svo vænn að mæla með einhverjum flugum sem hann gæti keypt og haft með sér á silungsveiðar!
Innkaupalisti!
Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlægja eða vera upp með mér. En ég ákvað að láta eins og ekkert væri og láta vin minn ekki finna það á mér að hann hafði spurt mig um innstu rök tilverunnar. Ræskti mig. Spurði varfærnislega: "Þú ert að biðja mig um að mæla með flugum?"
En ég ákvað að blása vini mínum tiltrú í brjóst og láta alls ekki á mér finna að þessari spurningu væri einfaldlega ekki hægt að svara, því maður ætti aldrei nóg af flugum - og aldrei réttu fluguna.
Ég lét vera að útskýra að flugur í stærðum og gerðum væru fleiri en stjörnurnar á himihvolfinu. Svo í stað þess að segja honum að hann væri að hefja ferð án enda, sagði ég honum einfaldlega að hinkra, náði mér í kaffisopa, settist niður og bað hann að skrifa innkaupalista. Innkaupalisti fyrir byrjendur sem eru á leið í silungsveiði en vita ekki almennilega hvað þeir eiga að hafa með sér.
Grunnsafn:
1) Zulu. Svört Zulu er frábær fluga sem nú virðist ganga í endurnýjun tiltrúar í mínum félagahópi. Gott er að eiga stærðir 10, 12 og 14 og ég vil hafa hana tvíkrækju. Sérviska. Þegar ég veit ekkert hvað ég á að gera set ég Zulu undir. Og stundum veit ég alveg hvað ég á að gera: og set Zulu undir! Ég þekki mann sem veiðir bara á eina flugu, á enga aðra- Zulu!
2) Peter Ross. Hrein snilld. Sú besta í hópi teal-flugna (urtandarvængjur). Númer 12 er bráðdrepandi hvar sem hún fer, númer 10 er líka góð. Með Peter Ross ertu alveg örugg (ur) um að þú sért að gera eitthvað rétt. Biðjið líka um púpu-afbrigðið af þessari flugu, og þá númer
14.
3) Watson's Fancy. Góð silungafluga, en ekki kaupa hana! Kaupið púpuna! Svínvirkar, ekki síst með kúluhaus. Með Peter Ross fluguna, og Watson's fancy púpuna ertu Atli húnakonungur veiðivatnanna.
4) Peacock! Svo einföld, svo brilljant. Púpa sem slær öllu við oftar og lengur en menn átta sig á. Virkar eins og allar þær flugur sem áður eru aldar á bæði urriða og bleikju. Bleikjan er sérlega veik fyrir henni. Íslensk hönnun eftir Kolbein Grímsson.
5) Nú vandast málið. Kannski þarftu ekki fleiri flugur? Tæpast. Og þó. Ekki myndi ég vilja fara í veiðitúr án Pheasant tail púpunnar. Biðjið um Sawyer's Pheasant tail, ef heppnin er með er afgreiðslumaðurinn með á nótunum. Stærðir 10, 12, og 14 eru stórfenglegar í hvaða flugnabox sem er. Með kúluhaus eða án. Helst tvær af hvorri.
6) Nú erum við komin út í sérviskur. Og þó. Fyrrgreindar púpur og flugur eru smáflugur. Þú þarft straumflugur. Black Ghost er númer eitt á meðal þeirra, og ætti kannski að vera ofar á lista. Láttu ekki plata þig til að
kaupa stærra en númer 6. Fín stærð. Og svo virkar hún á lax líka ef heppnin er með! Góð fyrir straumþungar eða vatnsmiklar ár og vötn. En þá þarf stærði 2-4. Satt að segja alveg dásamleg. Biddu um hana með frumskógarhana kinn.
7) Straumfluga númer tvö verður að vera dökk. Því þrátt fyrir nafnið er Black Ghost ljós. Svartur nobblerer slíkur fjöldamorðingi að í raun ætti að banna hann. Þú kaupir þér tvo: númer 6 og annan númer 10!
8) Þurrflugulaus viltu ekki vera. Black Gnat kemur fyrst og þú notar hana jafnvel þótt fiskurinn sé ekki að taka uppi á yfirborðinu, því hún virkar líka sem votfluga. Stærðir 12 og 14 eru ósköp góðar. Black Gnat gerir það sama fyrir þig og Zulu: þér líður vel með hana á færinu, en það á nú við um Peter Ross líka.
9) Nú ertu orðin(n) vel birg(ur) og flugurnar orðnar fleiri en þú getur notað á einum degi. Skynsamlegt væri að kaupa ekki fleiri. En vegna þess að þú býst fastlega við að fara aftur í veiðitúr og það er alltaf gott að geta valið, þá bætir þú við tveimur flugum: flugunni sem maðurinn í búðinni segir að allir noti þar sem þú ert að fara, eða, Teal and black. No 12. Hún er náskyld Peter Ross og það er ekki verra að eiga púpu afbrigðið af henni líka. Jafnvel örsmátt, númer 14 eða 16.
10) Engin ástæða er til að fjölga flugum í boxinu. En af því að 10 er falleg tala bætum við einni við. Ertu að fara í væna bleikju eða sjóbirting í straumvatni? Þá er það rauð straumfluga: Dentist eða appelsínurauður nobbler. Er það urriði í staumvatni? Þá er það straumfluga með gulum væng: Þingeyingur eða Mickey Finn. Ertu að fara í lítið stöðuvatn? Þá tekur þú killerpúpuna (hljómar vel!).
Sparnaðarboxið: Kauptu 1-5 og bættu við númer 6. Þú ert í góðum málum með tvær stærðir af hverri, samtals 12 flugur. Þetta er nánast ósigrandi her, flotinn ógurlegi, og þú ert fullsæmd(ur) af því að bjóða fiskum að skoða, og öðrum veiðimönnum að líta í boxið - því valið lýsir fádæma innsæi og snilld. Og ef einhver spyr: Og hvar fékkstu nú þennan lista? Þá svarar þú, hinn snjalli og vel birgi byrjandi sem átt í vændum góða veiði: "Þetta er valið samkvæmt upplýsingum frá virtum fræðimanni".
Ps. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég myndi ekki vilja sleppa tveimur
flugum Marcs Petitjeans af þessum lista, en þar sem þær fást ekki í búðum á
Íslandi þá verður þetta að duga.