Fyrsti fundur vetrarins hjá kvennanefnd SVFR var haldinn í gærkvöldi í salarkynnum SVFR við Rafstöðvarveg. Um 20 konur mættu á fundinn en markmið kvennanefndar er að efla kvennastarf innan SVFR og auka þekkingu kvenna á stangveiði með fræðslu og námskeiðum.
Á þessum fyrsta fundi var farið yfir dagskrá vetrarins og kynntar tvær nýjar konur í stjórn. Í stjórn kvennanefndar eru nú: Anna Reynis formaður, Berglind Ólafsdóttir, Lilja Bjarnadóttir og María Hrönn Magnúsdóttir.
Á fundinum fór Ragnheiður Thorsteinsson, fyrrverandi stjórnarmaður, yfir úthlutunarreglur félagsins og kynnti nýja rafræna umsóknasíðu sem sett hefur verið upp. Það var ljóst á þeim umræðum sem spunnust í kjölfar kynningarinnar að ekki var vanþörf á að fara yfir þessar reglur sem sumum hafa þótt ansi flóknar.
Veiðiferð sumarsins var kynnt en kvennanefndin mun fara í Langá í lok ágúst. Nokkrar stangir eru ennþá lausar í þá ferð en hægt verður að sjá frekari upplýsingar um ferðina á Facebook síðu nefndarinnar. Uppselt hefur verið í kvennaferðirnar undanfarin ár enda hrikalega skemmtilegar ferðir og allir klukkutímar innan sólarhringsins nýttir vel. Veiðivon var með tilboð m.a. á tvíhendum en konur eru farnar að nota tvíhendur æ meira en áður.
Næsti fundur kvennanefndar verður haldinn 14. febrúar nk. og eru allar konur velkomnar hvort sem þær eru félagsbundnar eða ekki.
Á meðfylgjandi mynd er stjórn kvennanefndarinnar. Talið frá vinstri: María, Lilja, Anna og Berglind.