Regnbogasilungur veiddist í Hlíðarvatni í Selvogi um helgina. Þar var Valgeir Smári Óskarsson við veiðar og kastaði Króknum við stífluna og púpan féll í kramið hjá regnboganum. Valgeir sagði í samtali við Flugur að regnbogasilungurinn hafi verið sá fyrsti af 10 fiskum sem þeir félagarnir veiddu þennan dag. Hinir níu voru bleikjur en það segir ekki endilega að þessi óvelkomni gestur hafi verið einn á ferð.
Árni Árnason í Árvík er einn mesti áhugamaður sem fyrir finnst um Hlíðarvatn og lífríki þess. Hann sagðist ekki vita til þess, í spjalli við Flugur, að regnbogasilungur hafi veiðst í vatninu áður.
Valgeir segist hafa drepið regnbogasilunginn og hyggst setja hann í reyk. Á hann hefur hins vegar verið skorað að tilkynna fiskinn til Hafrannsóknarstofnunar enda óskar stofnunin sérstaklega eftir því, eins og fram kemur á heimasíðu hennar. Þar segir: Ef grunur leikur á að veiðst hafi eldislax eða regnbogasilungur skal tilkynna það strax til Fiskistofu eða Hafrannsóknastofnunar. Gefa skal upp veiðistað, dagsetningu, tegund, kyn, lengd og þyngd. Æskilegt er að koma fiski til Fiskistofu eða Hafrannsóknastofnunar til greiningar, ferskum eða frosnum. Uppruni fiska er þá metinn út frá útliti eða erfðasamsetningu.
Uppfært 05.06.18. Valgeir hefur tilkynnt fiskinn og skilað honum inn til rannsóknar.