Veiðin hófst í Hlíðarvatn í Selvogi í dag og þar settu menn heldur betur í fisk. Fyrir hönd Ármenn voru sex menn við veiðar í dag með þrjár stangir, hluti stjórnar félagsins og Hlíðarvatnsnefndarinnar.
Veiðin var frábær, alls veiddu Ámannastangirnar þrjár um 60 fiska í ansi köflóttu veðri þar sem stundum gustaði hressilega milli þess sem vatnið var spegilslétt í logninu. Það var úrkomuvottur í dag, slydda sem segir sitt um hitastigið og einmitt þess vegna þykir þetta með afbrigðum góð veiði. Stærsti fiskur dagsins hjá þeim félögum var 57 sentímetra löng og vel haldin bleikja sem veiddist á Brúarbreiðunni.
Ármenn veiddu um 30 fiska að loknum skyldustörfum á árlegum hreinsunardegi við vatnið síðastliðinn laugardag. Alls hefur því 91 fiskur verið færður í veiðibókina hjá Ármönnum sem verður að teljast afar góð byrjun sem lofar góðu fyrir sumarið.