Að sögn Jóns Jónssonar á Prestbakka er búið að opna tilboð í Geirlandsá. Jón var ekki margmáll um tilboðin í samtali í dag, hann sagðist ekki muna betur en sex tilboð hefðu borist í ána, en veiðifélagið óskaði eftir tilboðum til fimm ára, frá og með næsta veiðitímabili.
Stangaveiðifélag Keflavíkur hefur verið með Geirlandsá á leigu mörg liðin ár og félagið á veiðihúsið við ána. Samtalið við Jón var um margt merkilegt, hann sagðist til dæmis ekki muna hvort einhver ákvæði hefði verið í útboðinu um hús Keflvíkinga, né að í útboðinu hafi verið einhver skilyrði um uppbyggingu hálfu veiðifélagsins. Jón sagði þó að tilboð hafi komið frá Stangaveiðifélagi Keflavíkur og nokkur munur hagi verið á lægsta og hæsta tilborði.
Að sögn Jóns Jónssonar mun veiðifélagið funda um tilboðin fljótlega, "væntanlega í næstu vikur og í framhaldi af því munum við ræða við einhverja þeirra sem sendu inn tilboð, já eða alla," sagði hann en gat ekki sagt hvenær ákvörðun yrði tekin.
Geirlandsá við Kirkjubæjarklaustur er þekkt sjóbirtingsá. Þar veiddust 517 birtingar á síðasta ári. Árið 2015 veiddust 353 birtingar og 366 árið 2014. Myndin sem fylgir þessari frétt er fengin af vef SVFK.