2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
24.6.2017

Hundur nýliðans fúlsaði við aflanum

Baldvin Jónsson, fjallaleiðsögumaður með meiru, fór í góðum hópi í Mýrarkvísl á dögunum. Veiðin var ekki beint í frásögur færandi en félagsskapurinn þeim mun betri. Ekki skemmdi fyrir að hinn reyndi veiðimaður Atli Bergmann var með í för og gat miðlað þekkingu sinni. 

"Við fórum sjö félagar á fjórar stangir í Mýrarkvísl í Reykjahverfi í þrjá daga, 10.-13. júní. Veðrið var milt en blautt. Rigndi nokkuð á okkur og hitastigið fór niður í 2° á kvöldin og nóttunni og fór hæst í 7° yfir daginn þegar best lét, þannig að aðstæður voru ekki sem bestar fyrir tökustuð hjá silungnum," segir Baldvin í samtali við Flugur.is.

Hann segir að flestir í hópnum hafi veitt saman áður. "En einn okkar var í sinni fyrstu veiðiferð, hann var að læra tökin á fluguveiðinni og gekk ágætlega, enda með reynslubolta (Atla Bergmann) með í för sem kann svo sannarlega tökin á veiðiskapnum. Atli þekkti vel til í Mýrarkvíslinni og var afar fús að leyfa okkur hinum að njóta reynslunnar."

Hvernig gekk veiðin?
"Veiðin var dræm eða sæmileg. Fiskurinn var heldur smár að mestu. Fengum um 30 silunga, mest smáan urriða og eina væna bleikju sem kom úr Langavatni sem áin rennur úr.
Púpur upstream gáfu sæmilega og Krókurinn þar best, sem og Dentist og Black Ghost straumflugur í þverköst og downstream. Sjálfur veiddi ég allt sem ég náði á Peacock afbrigði með rauðu skotti."



Einhver góð saga úr ferðinni?
"Eftirminnilegast var að félagi Mörður var þarna að veiða sína fyrstu silunga og hafði fallegan Labrador hund með í för. Hann hafði af einhverri fengið þá flugu í höfuðið að hundurinn yrði afar ánægður með að fá fyrsta fiskinn sem að eigandinn myndi veiða til átu. Það kom honum svo verulega á óvart að hundurinn - sem almennt étur hvað sem að kjafti kemur, er meðal annars afar sólginn í gæsaskít o.fl í þeim dúr - hafði alls engan áhuga á hráum urriðanum og fúlsaði við aflanum eigandanum til nokkurrar mæðu."

Hvað er framundan í sumar í veiðinni?
"Hópurinn er mis duglegur og bókaður en mest í silungsveiði hingað og þangað um landið. Ég mun mest fara það sem eftir lifir sumars í vatnaveiði fyrir vestan og á Skagaheiðinni, en slútta svo sumrinu á nokkrum dögum í sjóbirting ogbBleikju von í Eldvatnsbotnum."

Á efri myndinni má sjá sjö manna hópinn. Baldvin krýpur fyrir miðju. Honum á hægri hönd er Atli Bergmann. Lengst til hægri er Þór Saari, fyrrum alþingismaður. Á neðri myndinni er Baldvin með Merði Ingólfssyni.

13.10.2017

Lax og urriðadans

8.8.2017

Fluga aldarinnar