,,Kallast þetta ekki verðsamráð?" spyr Haraldur Eiríksson markaðsstjóri SVFR á spjallþræði á Fésbók í tilefni af því hvernig Landssamband veiðifélaga leggur línurnar í nýju fréttabréfi. Þar eru vangaveltur um nýleg útboð og lagt þannig útaf þeim að full tilefni sé til að hækka enn verð á veiðileyfum:
Þar segir:
"Nokkuð hefur verið um útboð á veiðiám nú í haust. Búið er að opna tilboð í Laxá á Ásum, Þverá og Kjarará og Flókadalsá efri, í Fljótum. Allsstaðar er um verulega hækkun að ræða miðað við eldri samninga, eða frá 20% upp í rúm 50%. Eftir þessu að dæma virðast sumir veiðileyfasalar meta það svo að markaðurinn þoli þó nokkra hækkun.
Ýmsar ár eru með lausa samninga haustið 2013, og því að velta því fyrir sér þessar vikurnar, hvort rétt sé að fara í útboð eða leita samninga vð leigutaka án þess. Má þar til nefna Laxá í Kjós, Grímsá og Tunguá, Haukadalsá, Gljúfurá í Borgarfirði og eflaust fleiri.
En hvort heldur sem veiðifélögin kjósa- beina samninga eða útboð - þá er það ljóst að niðurstaða þeirra útboða sem nefnd eru hér að ofan munu hafa áhrif til hækkunar á þeim samningum, sem gerðir verða á næstunni."
(Leturbreyting flugur.is).
Ekki hýrnar yfir veiðimönnum við þessi tíðindi.