það er síður en svo útilokað að veiða lax á silungapúpur eins og dæmin sanna, og hér er enn eitt: ,,Undirritaður er búsettur á Ísafirði og fer ég á stundum í smærri ár hér í nágrenninu, til að ná mér í sjófleikju. Veiðin er nú sjaldan mikil en gómsæt þegar á diskinn er komin.
Ég veiði bleikjuna eingöngu andstreymis með tökuvara og nota mikið púpur með kúluhaus. Nú í sumar hefur það gerst í tvígang, að ég hef fengið lax með þessari veiðiaðferð þótt ég hafi ekki vitað af laxi í viðkomandi ám.
Fyrst taldi ég þetta algjört glópalán, en fór að efast þegar þetta gerðist svo aftur nokkru síðar.
Púpan sem ég notaði í bæði skiptin er mín útgáfa af ,,króknum? hans Gylfa heitins. Set rauðalitinn aftan við húluna í stað aftast á púpuna. Gaman væri að vita hvort þetta væri ekkert óalgengt. Er þetta e.t.v. góð aðferð við laxveiðar þegar lítið vatn er í ánum og hiti ?
Sendi með mynd þar sem púpunni er tyllt á haus bráðarinnar.
Með kveðju,
Þorleifur Pálsson, Ísafirði.
Þökkum Þorleifi, og hann hefur rétt fyrir sér: Lítið vatn og hiti, þá má vel prófa þetta bragð. Það er reyndar heil grein um þetta á heilræðasíðunni okkar!