
Grenlækur á góðum degi, í hættu núna?
Hamfaramyndir úr Skaftafellssýslum senda hroll um hryggjarsúlu allra sem unna gróanda og mannlífi um sauðburð að vori, en það eru fleiri í hættu en blessuð litlu lömbin. Veiðimálastofnun hefur sent frá sér eftirfarandi: ,,Í eldfjallaösku geta verið eiturefni eins og flúor og álsambönd. Þegar úrkoma verður skolast þessi efni auðveldlega út og í nærliggjandi vötn. Púls eiturefna getur því borist í vötn og valdið þar dauða lífvera. Það sem ræður skaðsemi þessa er magn öskufalls og magn eiturefna í öskunni. Á þessari stundu liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar um efnainnihald öskunnar, en fyrstu mælingar sýna að lítið er af flúor í öskunni, sem betur fer". (Sjá nánar www. veidimal.is). Á áhrifasvæði gossins eru mörg fegurstu og auðugustu fiskivötn landsins og vonum við það besta. Ljóst er þó af fréttum í morgun að vötnum eins og Grenlæk og Tungulæk er verulega ógnað og í raun öllu Skaftársvæðinu. Gosið í Eyjafjallajökli í fyrra gjörspillti Skógá sem veiðiá með því að fylla hana af ösku.