Veiðifélag Stóru-Laxár hefur gert samning við Lax-á til næstu sex ára. Flugufréttir greindu frá því fyrir skömmu að samningar væru lausir við Stangaveiðifélag Reykjavíkur sem hefur haft ána innan sinna vébanda í 49 ár, eða frá árinu 1961.
Samkvæmt heimildum okkar bauð SVFR 20% hækkun milli ára en Lax-á 60% hækkun. Því munaði 40% á tilboðum þessara aðila. Af því má áætla að verð veiðileyfa í ánni muni hækka umtalsvert.
Síðasta sumar var það gjöfulasta í Stóru-Laxá frá upphafi mælinga og er það ekki síst að þakka kaupum SVFR á netaréttindum í Hvítá og Ölfusá.
Þetta er annað veiðisvæðið sem SVFR missir á einni viku, því nýverið missti félagið Syðri-Brú, efsta veiðisvæði Sogsins, eins og greint var frá í síðustu Flugufréttum.