Fram kemur á heimasíðu SVFR að Stóra-Laxá hafi slegið met í sumar með samtals 764 laxa, en stórveiðisumarið 1984 átti fyrra met upp á 707 laxa. Aflanum var þó misskipt sökum þurrkatíðar lungan úr sumrinu en nóg var af vatni síðustu vikuna og metið lá.
Stærsti laxinn á svæði III, 93 sm hængur úr Heljarþrem.
Nokkuð merkileg hlýtur að teljast ládeyðan á svæði III en þar náðust samtals 63 laxar. Orðrétt segir á vef SVFR: ,,Það er hins vegar eitthvað mikið að á svæði III. Gamalgrónir veiðistaðir líkt og Iðan við Sólheima og Sveinsker eru hreinlega ekki virkir sem áður og bera veiðitölurnar það með sér. Virðist sem að helst sé að fá fisk í harðri göngu í Heljarþrem og á Hlíðareyrum en legustaðir eru hreinlega ekki fyrir hendi. Í sumar fengust 63 laxar á þessu gullfallega veiðisvæði".