Fram kemur á vef SVFR að árnefnd Langár lokaði ánni á síðustu helgi og endaði áin í 2.235 löxum. Það er fimmti besti árangur frá upphafi segir ennfremur. Langá átti við vatnsleysi að etja eins og svo margar aðrar ár þegar líða tók á sumarið en er þó með vatnsmiðlunarlón við Langavatn sem dugði skammt.
Björn Baldursson með hænginn góða, mynd fengin að láni af vef SVFR.
Veiðin er einungis 16 fiskum minni en í fyrra og verður það að teljast góður árangur en auðvitað fara ekki allir veiðimenn frá slíku þurrkasumri ánægðir. Árnefndin lokaði ánni eins og fyrr segir en náðu jafnframt að krækja í stærsta lax sumarsins og var það Björn Baldursson sem dró að landi 86 sm hæng úr Efri-Hvítstaðahyl sem var jafnframt fyrsti lax sumarsins hjá honum. Björn hnýtti sjálfur fluguna sem er silungapúpa og heitir hún viðeigandi nafni, Bjartasta vonin!