Nýjungar í stangveiði eru á hverju strái, ný efni, nýjar línur, nýr fatnaður. Ef þú vilt trúa auglýsingum þá er veiðin hreint ótrúlega einföld, blotnar aldrei í frábærum 30 laga öndurnarfatnaði sem var hannaður fyrir geimfara, veiðir alla fiska sem á annaðborð eru í vatnakerfinu í þeim landshluta sem þú ert staddur í þann daginn og allir dagar eru ógleymanlegir, svo lengi sem þú notar rétta vörumerkið.
SINTRIX stöng í prófunum. Hardy´s hafa haft stangirnar í prófunum í meira en ár og fullyrða að engin stöng hafi brotnað ennþá.
En við vitum að lífið er ekki alveg svona einfalt, en öðru hverju koma alvöru nýjungar á markaðinn. Þróun fluguveiðistanga hefur ekki tekið mörg skref í raun, frá bambus yfir í fiber, yfir í carbon. Munurinn er samt gríðarlega mikill þó svo bambusstangirnar standi enn fyllilega fyrir sínu. Hardy og Greys, framleiðendur mjög vandaðs veiðibúnaðar tilkynntu á dögunum nýja línu sem sett verður á markað í janúar á næsta ári: SINTRIX stangir. Efnið er 60% sterkara
en carbon og 30% léttara. Efnið inniheldur micró-silicon agnir sem breyta eiginlega stanganna til muna. Reyndar eru framleiðendurnir svo vissir um eiginleika nýja efnisins að þeir fullyrða að uppundir 70% allra þeirra stanga verði úr þessu efni eftir 5 ár.
Efnið var þróað í Alnwick í Bretlandi af Hardy Composite, en þeir framleiða einnig efni fyrir flugvéla- og vopnaiðnaðinn.
Á eftirfarandi myndbandi má sjá baráttu við 55 punda hákarl, stöngin er #7 og með nýja SINTRIX efninu.