Séu aflahæstu árnar á Íslandi metnar sérstaklega án ,,hafbeitaránna" er vertíðin í ár sérlega góð, afli meiri en 2008 og 2009. Þetta má sjá af hugleiðingu Þorsteins á Skálpastöðum á www.angling.is. Hann tekur Rangárnar báðar út fyrir sviga ásamt Breiðdalsá og sér þá að heildarveiðin í 22 viðmiðunarám er 34 000 laxar í ár, - sem er meira en tvö fyrri ár. Auðvitað verður að setja þann fyrirvara að umgengni við þessar 22 ár er mjög mismunandi, og ekki nærri allar ,,sjálfbærar"; sumar með miklar seiðasleppingar að baki. En niðurstaða hans er þessi:
,,Ef við lítum svo á að aflinn í þessum ám sé nokkur mælikvarði á árangur hrygningar, afkomu seiða og endurheimtur úr hafi, þá hljótum við að fagna þessari stöðugu aukningu. Því miður er stærsti orsakavaldurinn þarna að líkindum aukin hlýindi, fremur en betri árangur hjá okkur í meðferð ánna. Þó skulum við vona að lækkaður dagskvóti og aukin slepping lifandi laxa - og þar með stærri hrygningarstofn - eigi þarna einnig hlut að máli." Eðlilegir fyrirvarar myndi maður ætla.