Laxveiðin í Ísafjarðardjúpi hefur gengið vel síðustu daga samkvæmt Bæjarins besta á Ísafirði (www.bb.is). Veiði í Laugardalsá er lokið eins og fram kom í frétt á flugur.is fyrr í dag og þar komu 544 laxar á land.

Hvannadalsá - Mynd fengin að láni af Agninu (www.agn.is).
Góð veiði hefur verið víða um land en árnar fyrir vestan auðvitað líka liðið fyrir þurrka. Um mánaðamótin höfðu 365 laxar komið á land í Hvannadalsá en veiði lýkur þar 24. september. 219 laxar höfðu komið á land í Langadalsá 30. ágúst.
Einnig hefur BB eftir Emil Arnari Þórðarsyni hjá Lax-á (www.lax-a.is) að það sé eins og það sé enginn smálax fyrri vestan, bara stórir boltar. Það sé frekar óvenjulegt þar sem stórlaxagöngurnar eru þar fyrri part sumars og núna ættu árnar að vera fullar af smálaxi.