Öðru hvoru berast fréttir af reglubrjótum, veiðiþjófum og ýmissi starfsemi annarri sem mætti missa sig alfarið. Nú síðast voru svokallaðir ,,veiðidónar" teknir í Víkurá í Hrútafirði og greinir Vötn og veiði (www.votnogveidi.is) frá þeirri leiðu sögu. Þar var um að ræða veiðimenn sem fóru gróflega fram úr kvótanum. Þetta vekur upp spurningar um viðurlög við því að virða að vettugi almenna siðsemi og reglur um umgengni.
Flestir eru ekki nafngreindir í fréttaflutningi um þessi mál þó undantekningar séu sannarlega fyrir hendi, en fróðlægt væri að heyra hvernig rétthafar bregðast við. Einnig væri gaman að heyra í forsvarsmönnum stangaveiðifélaga um þessi mál og hvort þau berist félögum viðkomandi brothafa. Flugur.is munu á næstu dögum fylgja þessu máli eftir og ná tali af helstu aðilum í þessu samhengi og einnig væri gott að fá ábendingar um hvernig svona málum hefur verið lokið.