Það er ýmislegt sem gerist skondið í veiðinni, en sú uppákoma sem hér fer á eftir er með þeim skringilegri. Á vefsíðunni Vötn og veiði (www.votnogveidi.is) birtist nýverið fréttaskot undir nafninu ,,Norðurá pökkuð af bleikju" og var það Axel Óskarsson veiðileyfasali hjá Lax-á sem sendi viðkomandi vef fréttina og var aðauki að leiðbeina erlendum veiðimanni í téðri ferð sem farin var í Norðurá í Skagafirði. Hægt er að skoða fréttina hér: Norðurá pökkuð af bleikju.
Ekki vildi betur til en svo að þarna var um ólöglega veiði að ræða, á verndarsvæði þar sem stangveiði er bönnuð. Frétt um þetta birtist á vefnum Vötn og veiði í dag, 22. ágúst eftir að Kári Gunnarsson
í Varmahlíð sendi þeim skeyti. Þar segir ennfremur orðrétt frá Kára:
?Mig langar að benda ykkur á að við frétt um Norðurá í Skagafirði (14.ágúst s.l.) er mynd tekin á svæði sem hefur verið friðað fyrir veiði í sumar og eru því veiðiþjófar á ferð á myndinni með umfjölluninni. Haft var samband við viðkomandi og viðurkenndi hann að hafa keyrt fram hjá skilti sem bendir mönnum á að þeir séu á fiskverndarsvæði. Veiðiþjófnaður hefur verið mikið vandamál þarna í sumar, veiðimenn síðast staðir að veiðiþjófnaði þarna í morgun, (laugardag). Mér finnst allt í lagi að þið fjallið um þetta vandamál á vefnum, eftir frétt ykkar um Norðurá pakkaða af bleikju, hafa veiðiþjófar verið á þessu svæði flesta daga og koma óorði á þann mikla meirihluta veiðimanna sem eru til fyrirmyndar".
Þarna er því ansi skrýtið mál á ferðinni, því fáir vita betur en veiðileyfasalar hversu mikilvægt er að fara eftir þeim reglum sem veiðimönnum eru settar í umgengni við ár og vötn. Þarna hlýtur að vera um einhvers konar misskilning að ræða því varla hefði viðkomandi ,,veiðiþjófur" farið að senda sönnunargögn til birtingar á veiðivefjum ef hann hefði talið sig hafa brotið reglur.
Þetta er því ansi snúið mál en heldur spaugilegt ef skoðað er í þessu ljósi. Við að sjálfsögðu hvetjum alla til þess að fara að settum reglum en ef svo ber undir, einhverra hluta vegna, að farið er á svig við þær (reglurnar) þá er kannski ekki það skynsamlegasta að setja þær á Netið!