Hvernig er best að meta góða veiði? Telja fjölda fiska? Deila svo í með fjölda stanga? Eða spyrja bara um hve margir stórir hafa náðst?
Eins og oft áður er Laxá á Ásum aflahæst þegar metinn er fjöldi veiddra laxa á stöng. Miðað við tölur frá www.angling.is (sjá frétt að neðan) eru Ásarnir með 309 laxa á stöng það sem af er sumri, langt á undan næstu á, sem er Haffjarðará, með 250 laxa á stöng. Aðeins er veitt á tvær stangir í Laxá á Ásum og sex í Haffjarðará. Síðan koma Blanda, Þverá/Kjarrá, Miðfjarðará, Selá í Vopnafirði, og Leirvogsá, allar með yfir 200 laxa á stöng það sem af er sumri. Flókadalsá (182) og Elliðaárnar (177) koma í næstu sætum,
og svo hlið við hlið með svipaðan afla, stórveiðiáin Eystri-Rangá (173) og Búðardalsá (165)! Sjálf Norðurá er nokkuð fyrir neðan í aðeins 16. sæti og af öðrum frægum ám má nefna að Laxá í Aðaldal er mjög neðarlega með aðeins 56 laxa á stöng á dag.
,,Frægar ár" eru ekki alltaf bestar í þessum fræðum. Affall í Landeyjum og Andakílsá eru til að mynda ofar Víðidalsá, Hofsá í Vopnafirði, Svartá, Laxá í KJós og mörgum öðrum frægum laxveiðiám á þessum lista.
Taka verður fram að lengd veiðitíma er ekki tekin með í reikninginn hér, aðeins það sem hefur aflast á hverja stöng. Hins vegar kemur hér ekkert fram hvar þeir stóru hafa náðst. Þar er Aðaldalurinn auðvitað nokkuð ofarlega á blaði, ef ekki efstur, og Fnjóská, sem þrátt fyrir metveiði er ,,aðeins" með 88 laxa á stöng að svo komnu máli, var með meðalþyngdina 4 kg á lax um miðjan júlí! Svo það má meta veiðitölur með ýmsum hættti.