Fréttaritari Flugur.is heyrði í Stefáni Páli Ágústssyni hjá Lax-á (www.lax-a.is) rétt eftir hádegi í dag og staðfestir Stefán Páll að Blanda er búin að slá fyrra veiðimet upp á 2.413 laxa sem var sett í fyrra. Blanda er nú þegar komin í 2.453 laxa og júlí ekki enn lokið. Stærsti laxinn sem vitað er um var 107 sm en nokkrir reyndir veiðimenn hafa sett í stærri en slitið og er talið víst að þar fari yfir 25 punda fiskar. Stefán Páll segir ennfremur að það sé hærra hlutfall stórlaxa nú en áður og greinilegt að stofnin sé að sækja í sig veðrið undanfarin 2 ár eftir nokkurt ójafnvægi árin þar á undan.
Blöndulax sem tók Kola Fire flugu hjá fréttaritara.
En þrátt fyrir þennan glæsilega árangur var Adam ekki lengi í paradís, því nú lítur út fyrir að nálgist yfirfall í Blöndulónum, jafnvel í lok næstu viku en það er 4-5 vikum á undan áætlunum Landsvirkjunar. Það þýðir að svæði 4 verður nánast óveiðanlegt og veiði minnkar töluvert á svæðum 2 og 3. Hinsvegar bendir Stefán Páll á að það séu alltaf
2-3 staðir á svæði 1 sem halda fiski og því er ekki öll nótt úti enn.
Blanda á upptök sín í Hofsjökli og eru menn að velta fyrir sér hvað valdi því að yfirfall eigi sér stað svona snemma, sumir benda á að aska getir verið á jöklinum sem auki á bráðnun en það er ekki vitað fyrir víst hvað veldur. Hinsvegar getur brugðið á að ef ágúst verður kaldur að yfirfall hætti og þá getur svæði 4 orðið alger veisla.
Það er því ýmislegt sem er óráðið með veiðina í Blöndu og getur brugðið til beggja átta í því máli en metið er slegið og útlit um að talan eigi eftir að hækka töluvert áður en áin lokar í haust.