
Laxá í Aðaldal gaf Óskari Páli Sveinssyni þennan í síðustu viku, ein þeirra áa þar sem allt virðist í góðu gengi.
Menn tala um að stefni í metár í laxinum og hafa til marks fróðlegar samantektir Þorsteins á Skálpastöðum (www.angling.is) , sem sýna aukningu um tugi prósentustiga. Vatnsleysið vestan til hefur samt slegið á, en eigi að síður er staðan nú svo í júlílok að gríðarlega góð veiði er hvarvetna. Silungsveiði er einnig mjög góð nánast alls staðar, þótt á stöku stað sé greinilega minna um að vera en áður. Sjóbleikjan fyrir norðan virðist ætla að koma vel út, við höfum fréttir af vænum bleikjum í Hrútu, Víðidalsá, Vatnsdalsá, Brunná og Hofsá auk Fnjóskár svo dæmi séu tekin. Fróðlegt verður að sjá hvað gerist eftir næsta stóra straum nú í vikunni.