Pétur Pétursson leigutaki í Vatnsdalsá segir í viðtali við Flugur.is að um 70% meira sé komið á land en á sama tíma fyrra, eða um 130 laxar. Þrátt fyrir að árið 2009 hafi verið það besta frá upphafi stefni jafnvel í enn betra veiðisumar. Þó er alltaf erfitt að spá fyrir um gang náttúrunnar en Pétur segir að sannarlega gefi þetta mönnum vísbendingar og bjartsýni er jú hluti af veiðinni.
Tjörvi Þorgeirsson með 102 sm, 24 punda hæng úr Hnausastreng.
Tjörvi Þorgeirsson setti í glæsilegan 102 sm hæng í Hnausastreng 2.júlí sl. en sá reyndist heldur þyngri en kvarðinn segir til um. Samkvæmt bókinni ætti þessi fiskur að vera 21 pund en mældist 24 pund. Pétur nefnir að nýrunnir stórlaxar séu yfirleitt um 3 pundum þyngri en kvarðinn segi til um, þetta breytist auðvitað þegar líður á og fiskurinn búinn að vera í ánni einhvern tíma, þá séu hrygnurnar þyngri en hængarnir léttari. En kvarðinn sé mjög nákvæmur hins vegar varðandi smálaxinn.
Það gerist auðvitað margt skemmtilegt í veiði en þó finnst Pétri standa uppúr það sem af er að einn heppinn veiðimaður náði í maríulax í hollinu sem er að ljúka á hádegi í dag og var sá maríulax 89 sm, ekki slæm byrjun hjá þeim veiðimanni ! Alls komu 6 maríulaxar og í heildina yfir 30 á land í því holli og það hefur því verið mikil gleði á þeim bænum.
Pétur telur að hluti af velgengni Vatnsdalsár undanfarin ár megi þakka "veiða-sleppa" aðferðinni, en hún hefur verið við líði í 14 ár og telst algerlega sjálfbær, engar seiðasleppingar síðan árið 1998.
Áin er löngu uppseld í sumar en þó taldi Pétur að mögulega geti verið eitt holl laust á silungasvæðinu í ágúst.