Veiðin í vötnum í sumar hefur verið misjöfn, sumstaðar hefur gengið vel en þó hefur verið hálf kalt og bleikjan sérstaklega látið bíða eftir sér víða. Menn eru enn ekki farnir að sjá almennileg bleikjuskot í Þingvallavatni en það hlýtur þó að fara að koma að því bráðlega. Við heyrðum í Ingimundi Bergssyni hjá Veiðikortinu og sagði hann að nú væri aðal veiðitíminn að byrja, næstu helgar væru miklar ferðahelgar og þá færu að berast fréttir alls staðar af landinu en benti á að góð skot hefðu verið í fyrir austan að undanförnu.
Veiðikortið er sannarlega frábær búbót fyrir silungaveiðimenn.
Fréttaritari Flugur.is hefur farið víða í sumar, en Veiðivötn og Skagaheiðin hafa verið mest áberandi með góða veiði það sem komið er þó heyrst hafi af ágætri veiði hér og þar. Ingimundur er bjartsýnn á framhaldið og telur ásókn landsmanna í silungaveiði vera að aukast jafnt og þétt og Veiðikortið er klárlega að hjálpa til við þá þróun að mati fréttaritara.