Flugur.is náðu í skottið á Ólafi Finnbogasyni staðarhaldara í Langá á Mýrum undir kvöldið. Óli hefur ansi mikið að gera þessa dagana enda er Langá með glæsilega byrjun, í raun þá bestu síðan 1979. Undir hádegi í dag voru komnir á land yfir 150 laxar og menn hafa verið að setja í allt að 85 sm fiska og allavega tveir yfir 90 sm eru komnir í gegnum teljarann, en Langá er þekkt fyrir frekar smáan en afar kraftmikinn stofn og er sporður Langárlaxins sérstaklega stór.
Kastað í Stangarfossbreiðu.
Helstu flugur enn sem komið eru eru Sun Ray og Hitch túpur. Ágætis vatn er í ánni en fer lækkandi í miðlunarlóninu sem staðsett er við Langavatn.
Óli er bjartsýnn enda er uppselt í ánna til 14. ágúst og þakkaði hann það sérstaklega eljusemi SVFR manna enda hefur að sögn salan gengið vel á þeim bænum það sem af er sumri.