Veiðiklúbburinn Conráð gerði góða ferð í Stóru Laxá eins og við höfum minnst á og hér er mynd af vettvangi.
Lýsingarnar voru líflegar á fyrsta morgni fyrsta túrsins í ár! ,,Við vorum mættir á Pallinn kl. 7:15 næsta morgun og Nökkvi fékk að byrja að kasta. Green Brahan var sett undir, hálfstommu. Eftir ca. 6 köst kom fyrsta takan og það var tekið fast á honum, bremsan í botn og nokkuð ljóst að þessi átti ekki að sleppa. Þetta var stutt en frábær viðureign og á land kom 80cm ný hrygna, vel gekk að losa þríkrækjuna og eftir mjög stutta myndatöku var henni sleppt.
Þá fékk Formaður að kasta en hann hafði sett Avatar undir og eftir 3 köst var hann kominn með fisk. Sama aðferð var notuð, bremsan í botn og fast tekið á og eftir smá stund náðist hann í háfinn, sama stærð og áður, 80cm hrygna sem fékk líf. Ekki slæmt að ná 2 löxum af þessari stærð á 10 mínútum, algjörlega magnað. Að sjálfsögðu héldum við áfram og rétt fyrir kl. 8 náðum við svo 84cm glæsilegri hrygnu en hún tók líka Avatar. Við kláruðum svo Pallinn á því að ná einni 65cm hrygnu. Ekki leiðinlegt að byrja túrinn á 4 löxum á 2 tímum, allt á flugu... algjör gargandi snilld".