Jón Gnarr borgarstjóri opnaði Elliðaárnar í morgun að viðstöddum helstu fjölmiðlum. Jón var ekki lengi að setja í lax, en það tók um 4 mínútur og 35 sekúndur. Hann naut fulltingis Ásgeirs Heiðars, eins reyndasta leiðsögumanns í laxveiðum á Íslandi.

Jón Gnarr borgarstjóri fagnar maríulaxinum sínum.
Það tók ekki langan tíma að ná kvótanum sem er tveir laxar, því seinni laxinn kom stuttu seinna á Breiðunni, rétt fyrir neðan gömlu brúnna. Reyndar missti Jón einn í millitíðinni þegar línan festist undir steini í Holunni, veiðistað beint undir brúnni. Gengið var hreint til verks og löxunum landað án tafa, en veitt var á maðk. Laxarnir fengu ekki líf enda er það oft ansi erfitt í maðkaveiði.
Það er sorglegt að missa af frábæru tækifæri til þess að breyta hefðum og venjum því gaman hefði verið að sjá fulltrúa nýrra tíma nota flugur í opnun Elliðaánna.
Hægt er að horfa á myndband af veiðinni hér fyrir neðan.