Fréttaritari flugur.is hefur öðru hvoru heyrt frá veiðiréttareigendum að bannað sé að veiða silung í vötnum á stöng eftir kl. 22.00 á kvöldin. Sumir halda því statt og stöðugt fram að svona sé þetta bara í landslögum og því verði ekki breytt. Þetta er alrangt eins og kom fram í umfjöllun Flugufrétta árið 2004 og er sú grein birt hér á vefnum.
Þar sem við búum á Íslandi getur oft hentað að veiða silung eftir kl. 22.00 á kvöldin þegar lægja tekur og fiskurinn í tökustuði.
Öll veiði bönnuð milli 22.00-07.00.
Eftir að hafa velt þessu fram og til baka ákvað fréttaritari að hafa samband við Veiðimálastofnun, Fiskistofu og að lokum lesa lög um Lax- og silungsveiði frá árinu 2006, nr. 61.
Nálgast má lögin í heild sinni á slóðinni: http://www.althingi.is/lagas/135b/2006061.html
Finna má takmarkanir á veiðitíma lax varðandi 84 tíma reglu á viku en að öðru leyti getur fréttaritari ekki séð að lögin takmarki veiðar á stöng við ákveðinn tíma eða fjölda stunda per dag eða viku. Veiðifélögum eða veiðirétthöfum ef ekkert veiðifélag er, er sett að setja svokallaðar nýtingaráætlanir en þær virðast ekki takmarka veiði umfram það sem eðlilegt gæti talist.
Greinin sem fjallar um veiðitíma vatnasilungs er hér fyrir neðan í heild sinni.
19. gr. Veiðitími vatnasilungs.
Veiðar á vatnasilungi eru heimilar frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. Slíkar reglur, nýtingaráætlun, skal [Fiskistofa]1) staðfesta að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar. Sinni veiðifélög eða veiðiréttarhafar ekki þessari skyldu sinni getur [Fiskistofa],1) að eigin frumkvæði, sett slíkar reglur.
Í reglum skv. 2. mgr. er m.a. heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
a. alfriðun veiðivatns um tiltekið tímabil,
b. tímabundna friðun innan veiðitímabils, t.d. um ákveðinn daga- eða vikufjölda,
c. takmarkaðar veiðar til heimilisþarfa á friðunartíma,
d. friðun vatnasilungs á hrygningarstöðvum,
e. ákvörðun um mörk veiðisvæða.
Lögin takmarka ekki veiði á stöng eftir kl. 22.00 í vötnum. Þetta var meðvituð ákvörðun á sínum tíma eins og Jón Kristjánsson fræðir okkur um í ofangreindum pistli. Þetta kom m.a. til álita þegar bannað var að veiða á Arnarvatnsheiði um nætur (sem varla er í gildi nú) og aftur þegar leyfð var næturveiði í Hlíðarvatni. Sjá greinina Næturveiðar á spjallsíðu.
Réttindi veiðimanna eru oft takmörkuð, en það er óþarfi að bæta við einhverri vitleysu.
Já! Vinningar vikulega!
Ég vil gerast áskrifandi að Flugufréttum og ganga í netklúbbinn með öllum þeim hlunnindum sem fylgja!
Dregið vikulega fram yfir 17. júní.
Smelltu hér til að skrá þig.