Heldur hefur vatnaveiðin farið rólega af stað þetta sumarið en þó kropp hér og þar. Heyrst hefur af fallegum urriðum í Þingvallavatni, m.a. einum 17 punda sem landa var á fjarka og það hefur nú verið gaman!
Fréttaritari flugur.is fór hringinn um Snæfellsnesið um helgina, byrjaði í Hraunsfirðinum og endaði á vatnasvæði Lýsu.

Vænasta bleikja úr Reyðarvatni.
Hraunsfjörðurinn bókstaflega kraumaði af fiski og það var mikil fluga. Fiskurinn var í miklu æti í yfirborðinu enda veður mjög milt og gott og tökur sáust um allt vatnið. Þrátt fyrir mikla tilraunastarfsemi náðust ekki margar bleikjur á land. Töluvert var að fjölskyldufólki við vatnið.
.jpg)
Kastað fyrir bleikju að kvöldi til í Hraunsfirði.
Því næst var haldið yfir Fróðárheiði og komið niður á sunnanvert nesið skammt frá vatnasvæði Lýsu og því tilvalið að renna fyrir bleikju og urriða á heimleiðinni. Hann Gunnar veiðivörður var að sjálfsögðu á staðnum og eftir stutt stopp á Lýsuhól (Gunnar 8934515/4356706/8934514) var haldið í Reyðarvatn.
Þar var bleikjan heldur frakkari en á norðanverðu nesinu og fljótlega voru komnar á land 2 vænar bleikjur, ein 3 punda og hin ca 2 punda. Samtals náðust 6 mjög vænar bleikjur á 2 tímum úr Reyðarvatni og allar tóku þær lítinn peacock. Meðalvigtin hefur verið um 2,5 pund.
Að auki sást líf í lækjunum milli vatnanna.