Samkvæmt fréttum frá Veiðimálastofnun www.veidimal.is, er flundran, einnig þekkt sem ósakoli enn að sækja á í vatnakerfum hérlendis. Nú fundust seiði efst í fiskgenga hluta Andakílsár.
Ennfremur segir í fréttinni að Veiðimálastofnun sé að hefja rannsóknir á lífsháttum flundru á vatnasvæði Hvítár og að mikil þörf sé á að kanna lífshætti hennar, m.a. með hliðsjón af hugsanlegri samkeppni um búsvæði við lax, urriða og bleikju.
Þokkaleg flundra í Sauðlauksdal í Patreksfirði 2009.
Fréttaritari flugur.is hefur orðið var við flundrur víða undanfarið. Árið 2009 veiddust til dæmis flundrur í Sauðlauksdal í Patreksfirði og þar var hún mjög áberandi í sandinum á grunninu og tók grimmt púpur. Að auki veiddust þær í Varmá og nú í vor sáust ansi stórar flundrur í Hraunsfirðinum.
Flundrur og laxaseiði sem veiddust ofarlega í Andakílsá 20.maí 2010, mynd af vef Veiðmálastofnunar.
Flundran bragðast ágætlega, bæði hrá og steikt og ágætt að krydda með sítrónusafa og fiskurinn úr henni afar fallegur áferðar. Það væri gaman að fá sögur frá veiðimönnum sem hafa nýtt þennan fisk til matar og jafnvel uppskriftir, því flundran er greinilega komin til að vera og eins og einhver skynsamur sagði: ,,Ef lífið lætur þig hafa sítrónur, búðu þá til límonaði".