Tíu manna hópur var við veiðar í Litluá í Kelduhverfi nú um helgina við ágætar aðstæður. Í ánni er veitt á fimm stangir. Veðrið var eins og best verður á kosið til veiða svo snemma árs, sérstaklega framan af. Á meðal veiðimanna var einn sem er uppalinn við ána, svo að nægar voru „innherjaupplýsingarnar“ um veiðislóðina. Aðrir voru að koma til veiða í Litluá í fyrsta sinn, en sem kunnugt er ríkir þar sú ágæta regla að einungis er leyfð fluga og einnig sú regla sem er öllu umdeildari að öllum afla er sleppt. Einn úr hópnum fékk sinn fyrsta fisk á flugu í túrnum og nokkrir prófuðu í fyrsta sinn að sleppa fiski. - Sá stærsti var sex pund.
Það var ekki vandamál fyrir þennan hóp að sleppa öllum afla, það gerðu allir með bros á vör og skemmtu sér konunglega við flotta veiðiá. En fram hjá því verður samt ekki horft að það að sleppa ÖLLUM afla er ekki vinsælt hjá öllum veiðimönnum, á meðan sumir mæra þennan hátt í hástert geta aðrir ekki fellt sig við hann og finnst það hálfgert náttúruleysi að taka út úr dæminu elementið að yfirbuga bráðina. Í mörgum ám er hins vegar kvóti á því hvað má drepa marga fiska og kemur þá inn „pókerinn“ um það hvað maður á að gera ef maður veiðir fisk. Á maður að taka þennan og þurfa þá að sleppa rest þá vaktina, eða á maður að sleppa þessum og taka sénsinn á að fá annan fallegri seinna á vaktinni? Sem getur þýtt að maður kemur tómhentur af vaktinni. En þetta er spennandi og kannski einmitt ágætis málamiðlun, þ.e. að veiðimenn geta áfram ræktað veiðieðlið með öllu sem því tilheyrir og komið heim með feng sinn en taka þátt í að vernda fiskistofnana með því að sleppa þeim afla sem er umfram leyfilegt magn og/eða stærð.
Að lokum má nefna að á vef Veiðimálastofunar er að finna ágætar leiðbeiningar um það hvernig á að sleppa fiski og einnig töflu sem sýnir fylgni milli þyngdar og lengdar laxa. Það vantar hins vegar tilfinnanlega sambærilega töflu fyrir urriða og bleikju.