6.9.2009
Laxá á Ásum langefst með lax á stöng
550 laxar á stöng það sem af er vertíðar hlýtur að teljst gott, en það er einmitt talan í Laxá á Ásum. Gróflega skotið má ætla að þar að baki séu lauslega 60 veiðidagar, eða 9 laxar á dag að meðaltali. Að sögn Alex Dean sem verið hefur leiðsögumaður þar í sumar er nánast allt tekið á flugu, og mest á gárubragð og smáflugur. Leirvogsá er þrátt fyrir allt í næsta sæti (eftir mjög erfiða þurrka), en báðar eru tveggja stanga ár. Leirvosá er með ca 390 fiska á stöng yfir tímabilið. Ytri Rangá og Miðfjarðará koma næstar með yfir 300 laxa. Ætli mörgum bregði ekki við að sjá að Búðardalsá er þar næst, sæti ofar en Haffjarðará?
Þessar ár ásamt Selá og Víðidalsá hafa allar gefið meira en 200 laxa, gróflega reiknað. Andakílsá er næst rétt á eftir og fyrir ofan Blöndu, og Flókadalsá, sem allar slaga hátt í 200 laxa á stöng. Þar á eftir koma Eystri Rangá og Hrútá með kringum 170 laxa á stöng, Laxá á Dölum, Haukadalsá og Langá á svipuðu róli. ,,Stóru nöfnin" komast svo loksins að á eftir þessum: Þverá/Kjarrá og Norðurá með í kringum 160 laxa á stöng. Þessar tölur miðast við 2.sept frá angling.is og taka ekki mið af mislöngum vertíðartíma sem liggur að baki.