Oft hafa Flugufréttir verið roggnari en að loknum veiðidegi í gær, sem var algert núll en samt góður og gjöfull dagur, allt eftir því hvernig á það er litið. En þetta núll átti ekki við alla. Hofstaðaey var gjöful við Hannes J. Hafstein sem tók 11 bolta um kvöldið og Óskar Páll Sveinsson sex; fjörið var í Skriðuflóa. Fiskurinn hér að ofan kom úr Skurðinum í morgun hjá Hannesi, sem púpaði Sibbba púpuna andstreymis og fékk þennan feita og fallega 55 sm. urriða. Flugufréttamaðurinn sendir þessa skýrslu um framvindu í Laxá í Mývatnssveit:
Óðinshaninn var mættur og búinn að para sig.
Það voru ritstjóraskipti á miðjum degi og sá sem kvaddi átti Arnarvatn á morgunvaktinni og reið ekki feitum hesti þaðan. Sá sem tók við átti Helluvað og fullur bjartsýni skellti hann sér út í grjótið og strauminn efst í Brotaflóa og þvílíkur fiskur sem tók í einu af fyrstu köstunum. Sá lék allar sínar fínustu kúnstir, dansaði á sporðinum, reif út línu, stökk og lét öllum illum látum áður en hann hristi sig lausan. Lámark fimm pund sögðu sjónarvottar, kannski fjögur segja Flugufréttir í hæversku sinni. Kannski ekki kátar með að hafa misst drjólann, en sáttar við minninguna og myndirnar sem til eru af honum í ritstjórahuganum. Þessi fiskur gaf tóninn fyrir daginn, ritstjórinn hélt ekki einum einasta fiski. Ekki þar fyrir að tökurnar hefðu verið margar, en þrjú voru höggin og fiskarnir sem náðu að hrista sig lausa voru tveir.
Með réttu hugarfari má hér sjá fiskana sem ritstjórinn
missti. Takið sérstaklega eftir þeim efri sem er
hnöttóttur af spiki. Svona gerast urriðarniar fallegastir!
Heldur hefur dregið úr veiðinni eftir góða byrjun. Aðrir sem voru með Flugufréttum á Helluvaði í dag fengu ekki högg en fyrri vaktir hafa mokað honum upp á þessu svæði. Svona getur veiðin verið skemmtileg.
Vörðuflóinn í Hofstaðaey var svæði kvöldvaktarinnar!
Á morgun eiga Flugufréttir Brettingsstaði og síðan Hamar.