Elliðaárnar eru engin undantekning hvað varðar mikla laxagengd og mikla laxveiði í sumar. Veiðin í ár er sú mesta frá árinu 1989, eða í tvo áratugi. Bættar aðstæður í sjónum eru taldar helsta ástæða aukningarinnar en aðgerðir til verndar lífríki ánna og Elliðaárdalarins skipta einnig miklu. Má þar nefna átak í frárennslismálum, bætta veiðivörslu, seiðasleppingar og minnkaðan kvóta veiðimanna. Nú má hver veiðimaður landa tveimur fiskum, en að þeim fengnum veiða á flugu og sleppa. Þá er rekstri Elliðaárstöðvarinnar háttað þannig að gangur náttúrunnar truflist sem minnst.
Gleðileg ganga í Elliðavatn Veiðin ein segir þó ekki nema hálfa sögu um ástand laxastofnsins í ánum. Hún getur oltið á kunnáttu og getu veiðimanna, veðurfari,vatnsbúskap svo dæmi séu nefnd. Laxateljarinn í ánum er hinsvegar óháður slíkum þáttum. Enginn vafi er á því að reglur um afla hafi gert það að verkum að miklu fleiri fiskum er sleppt en áður. 455 löxum var sleppt í ár og á það talsverðan þátt í að efla hrygningarstofninn. Hann er nú talinn vera um 1.750 laxar. Í erfiðustu árum Elliðaánna, í kringum aldamótin síðustu, varð veiðin minnst árið 2001 eða aðeins 414 fiskar. Á árunum fyrir aldamót var hrygningarstofninn talinn vera einungis um 250 fiskar.
Nú í sumar gengu hinsvegar 211 laxar í gegnum teljara við Elliðavatn. Þessir laxar eru á leiðinni á gamlar, og til margra ára ónýtar, hrygningarstöðvar í Hólmsá og Suðurá. Þeir eru því gríðarlega mikilvægir til uppbyggingar laxastofns Elliðaánna. Mikil áhersla er lögð á að koma í veg fyrir veiðiþjófnað á þessu svæði vatnakerfisins. Elliðaárnar eru í eigu Reykjavíkurborgar, umsjá Orkuveitu Reykjavíkur og Stangaveiðifélag Reykjavíkur er leigutaki ánna.
|